Anne Herzog er franskur listamaður sem vinnur utan vinnustofunnar. Teikningar hennar nærast á ferðalögum og óvæntum samskiptum við þá sem verða á vegi hennar hverju sinni. Hún pakkar litlu í bakpokann og heldur af stað, ferðast oftast á puttanum út í óvissuna. Tilviljanirnar sem verða á vegi hennar keyra listsköpunina áfram og þessvegna mætti líta á teikningar hennar sem einskonar “road-movie” eða skjáskot atburða. Dulmagn náttúrunnar og blæbrigði hversdagsins eru Anne því uppspretta mynda og texta sem hún vinnur í einskonar dagbókarformi, því flestar tengjast myndirnar ákveðnu atviki, stað og stundu í lífi hennar á ferð um Ísland. Hver myndröð er því frásögn raunverulegra atburða, drauma og martraða, sem oft hverfast um návist hulinsheimanna og virkni eldfjallanna. 

 

Ísland á sér sérstakan stað í hugmyndaheimi Frakka. Snæfellsjökull, í senn eldfjall og jökull, er táknmynd leyndardóma, og þaðan liggur leiðin að miðju jarðar í frægri vísindaskáldsögu Jules Verne. Bókina fann Anne fyrir tilviljun og hún leiddi hana til Íslands. Anne heillaðist af víðáttunni, úfnu hrauni, og eyðilegri strandlengjunni á utanverðu Snæfellsnesi. Jökullinn seiddi hana til sín og mannlífið og landslagið – Hellissandur, Ólafsvík og Rif urðu sögusvið nýrra verka. Það var ekki aftur snúið og síðan hefur Anne dvalið langdvölum á Íslandi, lært málið, farið í framhaldsnám, og vinnur nú fyrir sér við ýmis störf, um leið og hún ferðast um landið og sinnir listsköpun sinni.

 

 Hún hleypir áhorfandanum inn í berorða frásögn af flökkulífi sínu. Myndir hennar lýsa þorpum og söluskálum, fuglalífi, veðrabrigðum, martröðum sem ásækja hana undir Jökli, ástarlífi veganna, rótleysi og hráum raunveruleika förumannsins.  Áhrifin eru sterk, því kraftmikil persónusköpun hennar, opið myndsvið, og festa línunnar draga áhorfandann inn í furðusögur sem allar eiga uppruna sinn í skynjun listakonunnar á náttúrunni. 

 

Myndsköpun Anne byggja á franskri myndasöguhefð, erótísku táknmáli súrrealismans, og teikniaðferð sem oft er kennt við óskólaða hrálist eða Art Brut. Eins og margir ungir myndlistarmenn, þá sækir hún tjáningarformið í dægurheima bernskunnar. Einlæg frásögnin, endurtekning táknmálsins, og skerpa litanna minnir á tilhneigingu samtímalista til að samsama sig frásagnaraðferðum teiknimynda og tölvuleikja. Sjálf hennar er sínálægt og hún umbreytir sér í teiknimyndaveru, andhetju sem jafnt heillar áhorfandann og skelfir. Hún er myndasöguhetja sem á í ótal ástarævintýrum, lendir í hrakningum utan vega, en sigrar að lokum drauga og skottur. Með rauða litinn og svarta pennann að vopni, gerir Anne flökkulífið að ævintýralegri spennusögu.

 

Æsa Sigurjónsdóttir